Meirihluti jákvæður í garð rafeldsneytis-framleiðslu

Ríflega 70 þjóðarinnar eru jákvæð í garð framleiðslu á rafeldsneyti á Íslandi, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Fjarðarorku. Spurt var: „Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú í garð framleiðslu á grænu rafeldsneyti á Íslandi“. Ríflega 72% þátttakenda sögðust frekar jákvæð, mjög jákvæð eða algerlega jákvæð í garð slíkrar eldsneytisframleiðslu, en aðeins 7,1% aðspurðra voru neikvæð í garð framleiðslunnar.

Þegar þátttakendur voru beðnir um að taka afstöðu til þess hvort þeir vildu flytja inn rafeldsneyti eða framleiða það á Íslandi hækkaði hlutfallið enn og voru þá 87% aðspurðra fylgjandi eldsneytisframleiðslunni.

Þegar afstaða íbúa á Austurlandi er skoðuð sérstaklega, en sjálfstæð könnun var gerð á afstöðu þeirra, sést að svipað hlutfall þátttakenda er jákvætt í garð eldsneytisframleiðslu á Íslandi, eða rétt tæplega 70%, en þekking aðspurðra á rafeldsneyti er töluvert meiri í landshlutanum en á landinu öllu. Þannig sögðust 49% íbúa á Austurlandi hafa heyrt um rafeldsneyti og ríflega 20,6% sögðust vita hvað rafeldsneyti væri. Sambærilegar tölur fyrir landið allt voru 31,3% og 14,2%.

Geta séð helmingi flotans fyrir orku

Ísland er í einstæðri stöðu til framleiðslu á grænu rafeldsneyti, að sögn Jens Jødal Andersen, aðstoðarframkvæmdastjóra skipaeldsneytis hjá CIP, en í viðtali við Fiskifréttir á dögunum fjallaði hann meðal annars um möguleika Íslendinga til að framleiða eigið eldsneyti fyrir fiskiskipaflotann.

Fjarðarorka vinnur að undirbúningi á Austurlandi til að framleiðslu á 220 þúsund tonnum af ammoníaki til að knýja orkuskipti í skipum, en CIP er bakhjarl Fjarðarorku í verkefninu.

Andersen segir í viðtalinu að þess sé vænst að sjávarútvegur verði stórnotandi ammóníaks fyrir skip. Einnig sé fyrirhugað að framleiðsla á grænu ammóníaki á Íslandi verði útflutningsvara til landa í norðvesturhluta Evrópu.

„Við getum framleitt yfir 200 þúsund tonn af ammóníaki á Íslandi árlega. Sú framleiðsla dygði til að sinna helmingi eldsneytisþarfar íslenska fiskiskipa- og farskipaflotans. Við vitum að orkuskipti á slíkum skala taka talsverðan tíma. Framundan er löng vegferð með mörgum tæknilegum áskorunum. Við erum í samstarfi við nokkur mjög áhugaverð innlend fyrirtæki og rætt er um hvernig hægt er að hefja þessa vegferð með yfirveguðum hætti. Gætu sjávarútvegsfyrirtæki innleitt þessa tækni til dæmis fyrir eitt skip til að byrja með, lært á tæknina og séð hvernig framvindan verður? Þegar allt kemur til alls verður sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, að stefna að kolefnishlutleysi. Spurningin er miklu fremur sú hvernig því markmiði verði náð.“

Viðtalið í heild sinni má lesa á vefsíðu Fiskifrétta. (https://fiskifrettir.vb.is/gaeti-sed-helmingi-skipaflota-islands-fyrir-orku/)

Fullt hús á fundi um vindorku til orkuskipta

Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Orkugarður Austurlands stóðu fyrir fundi á dögunum, þar sem fjallað var um þau tækifæri sem felast í nýtingu vindorku til orkuskipta og þann ávinning sem af henni getur hlotist fyrir samfélagið á Austurlandi.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti opnunarávarp þar sem hann fór yfir helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar í orku- og loftslagsmálum.

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði fundargestum frá Orkugarði Austurlands og fjallði um mögulegan efnahags- og samfélagslegan ávinning Austurlands af orkuskiptum.

Í sínu erindi fjallaði hún m.a. tækifærin fyrir Ísland þegar kemur að framleiðslu rafeldsneytis og hvernig það geti stuðlað að auknu orkusjálfstæði þjóðarinnar. Hún benti á að á Austurlandi séu til staðar sterkir innviðir og öflugt atvinnulíf. Þar væru tækifæri til aukinnar tengingar atvinnugreinanna, þar sem aukaafurðir einnar greinar nýtist sem íhlutir í þá næstu. Þannig væri hægt að byggja undir betri nýtingu innviða og  og áframhaldandi samkeppnishæfni og framlag til þjóðarhags.

Kristinn Bjarnason, lögmaður og fulltrúi Fljótsdalshrepps, sagði frá reynslu af uppbyggingu og starfsemi orkuvinnslu í Fljótsdalshreppi. Hreppurinn væri vel búinn til þess að takast á við slík verkefni.

Fjárfesting nauðsynleg

Anna-Lena Jeppsson, verkefnastjóri hjá CIP og Fjarðarorku, fjallaði um það hvað þurfi að vera til staðar svo hægt sé að nýta vindorku til orkuskipta á Íslandi og stuðla þannig að orkuöryggi þjóðarinnar. Með því að uppfæra vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, þannig að þær geti unnið meiri orku yfir skemmri tímabil, væri hægt að láta vatns- og vindorkustöðvar vinna betur saman til að framleiða meiri orku í heildina yfir lengri tíma.

Þá fjallaði Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landnets, yfir uppbyggingu flutningskerfisins á Íslandi og aukna nýtingu núverandi innviða á Austurlandi. Guðmundur benti á að innviðaskuld í dreifikerfinu væri mikil, eða um 86 milljarðar króna. Einföldun leyfisferla væri einn liður í því að auðvelda upbyggingu kerfisins.

Fundurinn var haldinn á Parliament Hotel við Austurvöll og var þétt setinn. Fjörugar og gagnlegar umræður sköpuðust í lok fundarins.

This site is registered on wpml.org as a development site.