Við hjá Fiskeldi Austfjarða settum þessa heimasíðu á laggir til þess að stuðla að enn frekari upplýsingagjöf til íbúa um fyrirhugaða uppbyggingu eldis í Seyðisfirði. Eftir íbúafund í Herðubreið í byrjun mars 2022 hefur undirritaður átt fjölmörg samtöl við ýmsa aðila á svæðinu til að ræða málin og gera grein fyrir áformum félagsins. Ég hef líka kynnt stöðu mála fyrir bæjarstjórn Múlaþings og heimastjórn Seyðisfjarðar.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að áform Fiskeldis Austfjarða í Seyðisfirði eru ekki óumdeild. En ég trúi því að með aukinni upplýsingagjöf til íbúa Seyðisfjarðar munum við geta svarað öllum spurningum sem brenna á fólki og jafnframt sýnt þeim, sem efasemdir hafa um framkvæmdirnar, að mikil sóknarfæri eru í þeirri fjárfestingu, uppbyggingu og atvinnusköpun, sem starfseminni fylgir. Sóknarfæri fyrir samfélagið á Seyðisfirði.
Hlutverk heimasíðunnar er að upplýsa íbúa um stöðu mála hverju sinni. Leyfisumsóknir bíða nú afgreiðslu hjá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun og vonir eru bundnar við að efnisleg meðferð hefjist nú á haustmánuðum 2023.
Það er mín von að aukin upplýsingagjöf og frekara samtal muni stuðla að víðtækari sátt í samfélaginu um verkefnið. Við hjá Fiskeldi Austfjarða hlökkum til þess að ræða betur við ykkur á komandi misserum.
Kær kveðja,
Jens Garðar